23. des. 2004

Til Varnar Spunanum eftir Sigurð Flosason.

Til varnar spunanum

Tónlistargagnrýnandi Fréttablaðsins, Finnur Torfi Stefánsson fjallar um jólatónleika Mótettukórs Hallgrímskirkju í grein í blaðinu laugardaginn 4. desember s.l., en á þessum tónleikum lék ég einleik með kórnum í nokkrum verkum, m.a. í formi spuna. Finnur Torfi fer hlýlegum orðum um leik minn og mig sem tónlistarmann, almennt talað. Fyrir þetta þakka ég, en finn mig því miður knúinn til að gera alvarlegar athugasemdir við málflutning gagnrýnandans um spunalistina og saxófónleik í almennu samhengi. Mér og allri minni stétt er misboðið af gífuryrðum hans um málefni sem hann virðist ekki vera sérstaklega kunnugur. Gagnrýnandinn setur fram varnaglalausar alhæfingar sem í besta falli eru byggðar á vanþekkingu, en má í því versta sjá sem svívirðilegar móðganir við stóra hópa listamanna, ekki bara hér á landi heldur á heimsvísu.

Ég gríp niður í grein Finns Torfa: "Spuni byggist á því að endurtaka svipaðar vel æfðar hendingar aftur og aftur, auk þess að renna upp og niður tónstiga". Gott er að vera viss i sinni sök og hér er sannarlega hvorki að finna fyrirvara né efasemdir. Ég þekki þó annan sannleika. Mér vitanlega er markmið allra spunamanna sem einhvers eru verðir persónuleg tjáning, skapandi flæði og sjálfkveikt samspil. Endurtekningu forðast menn eins og heitan eldinn, en uppbygging og áframhald eru hinsvegar markmið. Ég þekki engan jazztónlistarmann, hvorki hér á landi né erlendis, sem hefur þau markmið sem gagnrýnandinn lýsir sem grundvelli spunans. Hitt er ekkert launungarmál að ýmsir nota fyrirfram æfðar hendingar sem þjálfunartæki. Það gerði ég um tíma sjálfur á árum áður og hef einnig beitt þeirri aðferð við suma nemendur mína á vissum stigum námsins. Hin knappa lýsing gagnrýnandans á spunanum gæti að mínu áliti átt við miðlungs nemanda eða sérlega illa heppnaðan atvinnumann. En eru ekki fólki innan allra tónlistarstíla mislagðar hendur?

Fullyrðing gagnrýnandans er svo hrokafull að ég trúi varla ennþá að ég hafi séð hana á prenti. Sé greining hans rétt má ljóst vera að jazz er innihaldslítið rugl og öll önnur spunatónlist álíka húmbúkk. Hér finnur maður fnykinn af hinum daunillu vangaveltum um æðri og óæðri list, hámenningu og lágmenningu. Hafi Finnur Torfi rétt fyrir sér um spunann má spyrja hvort hundruðir háskóla hins vestræna heims séu ekki á villigötum með því að bjóða upp á nám í jazzi og spuna? Og ég hlýt að spyrja sjálfan mig hvort ég sé þá ekki falsspámaður í starfi mínu sem yfirmaður jazzdeildar Tónlistarskóla FÍH? Höfum við sem bókstaflega helgum líf okkar þessar tónlistarstefnu ekki byggt tilveru okkar á hjómi einu saman?

Og áfram heldur fræðileg útlistun gagnrýnandans á spunanum: "Hann hentar best í þröngri tónlistarlegri umgjörð þar sem allt er í föstum vel fyrirsjáanlegum farvegi. Það felst í þessum einkennum spunans að hann hefur ríka tilhneigingu til að verða einhæfur, sama hversu góður tónlistarmaður á í hlut. Af þessum sökum er spuni vinsælastur við þær aðstæður að menn geri eitthvað annað jafnframt því að hlusta, t.d. að njóta veitinga." Ég verð að leyfa mér að mótmæla hverju orði sem hér kemur fram. Hugleiðingar Finns Torfa um spuna í tengslum við mat og drykk eru svo niðrandi að þær eru nánast ekki svaraverðar. Hvað með alla hina stórkostlegu jazztónlistarmenn heimsins sem leika inn á hljómplötur, fyrir fullum tónleikasölum og á tónlistarhátíðum allt árið um kring? Hentar það kannski ekki tónlistinni? Er það listamönnunum til minnkunar að tónlist sumra þeirra hentar líka í klúbbum? Versnar tónlist ef matar eða drykkjar er neitt undir flutningi hennar? Gæti ekki líka verið að aðrar tegundir tónlistar nytu sín vel með mat eða drykk? Ólíkar hefðir skapast innan ólíkra tónlistarstíla - flóknara er það nú ekki. Almennt talað er það mín reynsla að jazztónlist þarfnast fullrar einbeitingar, en Finni Torfa er auðvitað frjálst að hafa aðra skoðun. Kannski að einbeitingarhæfni hans sé bara þroskaðri og dýpri en mín.

Finnur Torfi telur spunann hafa "ríka tilhneigingu til að verða einhæfur ". Um annað vitnar hin ótrúlega fjölbreytta en stutta saga jazzins. Innan spunastefnunnar er að finna gífurlega stílræna fjölbreytni, sem og mikinn fjölda persónulegra stílista. Mínar persónulegu rannsóknir sýna auk þess óhemju litskrúð innan spunatungumáls þeirra einstaklinga sem ég hef skoðað, en ég hef ritað upp eftir hljómplötum marga tugi spunninna einleikskafla þekktra jazztónlistarmanna frá ýmsum tímabilum. Hvað skyldi Finnur Torfi hafa rannsakað í þessu efni?

Finnur Torfi telur að "þröngur farvegur" henti spunanum best". Enn og aftur hefur hann rangt fyrir sér. Spuni er nefnilega afar fjölbreytt nútímalegt tónlistarform sem, a.m.k. innan jazztónlistar á sér margar birtingarmyndir. Menn spinna með ótrúlega margvíslegum hætti, m.a. yfir föst form og hljómaganga, en einnig er frjáls óhljómbundinn spuni af ýmsum gerðum algengur og þó að það kunni að koma einhverjum á óvart, þá hefur svo verið hátt á hálfa öld. Sumir nota blöndur frjáls og bundnari spuna þar sem einstakir frumþættir tónlistarinnar, s.s. hrynur, hraði eða hljómræn umgjörð er ýmist fullkomlega frjáls eða fyrirfram ákveðin að einhverju leyti. Menn spinna innan stórra forma þar sem hljómræn undirstaða er önnur en í undangenginni laglínu, menn spinna einir og margir saman, menn spinna út frá laglínum, menn spinna út frá hljómum og menn spinna fyrirvaralaust út frá engu öðru en forsendum samspilsins. Spunnið er út frá huglægum fyrirmælum einum saman. Það er spunnið á og með rafhljóðum, jafnt sem hefðbundnum hljóðfærum og það er jafnvel spunnið á hljómburð tónleikasala og hljóðvera. Menn spinna einradda og menn spinna fjölraddað. Spuninn er sem sagt fjölbreytt, leitandi tónlistarform og farvegur hans er sannarlega víður en ekki þröngur. Er niðurstaðan sambærileg við klassísk tónverk? Nei, auðvitað ekki. Henni er ekki og hefur aldrei verið ætlað að vera það. Kostirnir verða aðrir og gallarnir aðrir - eða með jákvæðara og uppbyggilegra orðalagi: Möguleikarnir verða aðrir.

Samanburði skrifaðrar og spunninnar tónlistar má líkja við að bera saman epli og appelsínu. Í ljósi annars er auðvitað hægt að halda því fram að hitt bragðist illa eða komi spánskt fyrir sjónir. Þannig er t.d. leikur einn, frá sjónarhóli langra skrifaðra verka í stórum formum, að halda því fram að form spunninnar tónlistar sé oft einfalt. Í sumum tilfellum er þetta rétt, en það er bara ekki þar sem áherslan er í spunninni tónlist. Með svipuðum hætti mætti horfa á skrifaða tónlist frá sjónarhóli spunans og halda því fram að hún hefði þann mjög svo alvarlega ágalla að í henni gerist alltaf það sama, þ.e. við hvern einasta flutning sama verks heyrast alltaf sömu nótur í sömu röð! Ég tek skýrt fram að þetta er ekki mín skoðun, en fullyrðingin er nákvæmlega jafn gáfuleg og sleggjudómar gagnrýnandans um spunann út frá forsendum hins skrifaða. Spunnin tónlist og skrifuð eru tveir ólíkir, en þó mjög skyldir hlutir, og frá mínum bæjardyrum séð hafa bæði tónlistarformin mikið til síns ágætis. Ég held að heimurinn sé ríkari fyrir tilvist beggja og undrast satt að segja hinn óverðskuldaða illvilja fárra en háværra einstaklinga í garð spunaformsins. Hvað höfum við, spunafólk heimsins, eiginlega gert af okkur?

Förum þá frá spunanum yfir í saxófónleik í sínu víðasta samhengi. Ég gríp enn niður í grein Finns Torfa, nú þar sem hann talar um saxófónleik minn: "Ennfremur neitar hann sér um ýmsar þær klisjur sem og kæki sem setur oft svip á saxófónleik manna". Þetta er vel meint og ég þakka, en má ekki skilja á orðum gagnrýnandans að saxófónleikarar heimsins séu eftirbátar annarra í listrænum skilningi? Ég finn mig knúinn til að bera hönd fyrir höfuð John Coltranes, Charlie Parkers og annarra risa jazzsögunnar. Ég spyr; nákvæmlega hvaða klisjur og kækir eru það sem einkenna mína stétt umfram aðrar?

Þá vil ég víkja að ummælum Finns Torfa um spuna yfir klassíska tónlist. Hann skrifar: "Þegar spunnið er við klassískt hljómsetta tónlist, þar sem hvert smáatriði raddfærslunnar hefur verið fágað til fullkomnunar, verður alveg sérstakt stílbrot þegar hin frjálsa spunarödd kemur ofan á og breytir tilviljunarkennt hljómnum í hverjum punkti." Ég vek athygli á hinu upphafna orðalagi "fágað til fullkomnunar" sem gagnrýnandinn velur sér þegar hann talar um klassískt hljómsetta raddfærslu. Hún er auðvitað misjöfn eins og öll önnur mannanna verk. Að sjálfsögðu má deila um þá hugmynd að spinna yfir klassíska tónlist. Mín skoðun er sú að tónlist sem lifað hefur lengi og elst vel þoli það að tekið sé á henni með öðru en silkihönskum. Auðvitað er það stílbrot, en getur það ekki verið jákvætt í sjálfu sér? Er ekki eðli listarinnar að leita í nýja farvegi, finna óþekktar leiðir og reyna á þanþol? Er ekki óhætt, eftir óendanlegar útsetningar og óteljandi flutning aldanna á t.d. "Það aldin út er sprungið", að prófa eitthvað nýtt? Ég verð reyndar að játa að hugtökin "sérstakt", "stílbrot" og "tilviljanakennt" geta hljómað sem nokkuð spennandi listrænar hugmyndir í mínum eyrum.

Ummæli Finns Torfa um saxófónleik og þó sérstaklega spuna eru með þeim hætti að mér finnst stétt mín svívirt og fag mitt fótum troðið. Ótrúlega margir punktar í grein hans eru stuðandi fyrir fólk af minni stétt og í raun virkar greinin eins og ódulbúin árás. Hvað réttlætir eiginlega ummæli af þessu tagi? Ég á ekki svar, en ummæli þau sem rakin eru hér að framan eru í mínum huga sorgleg opinberun vanþekkingar og þröngsýni. Jazz- og spunatónlist hafa liðið nóg fyrir fordóma á undangegnum áratugum og nú er mál að linni. Fáránlegum niðrandi aðdróttunum um grunn og gildi þessarar tónlistar er full ástæða til að svara, jafnt nú sem í fortíð og framtíð. Jazz og spuni njóta jafnrar virðingar á við hvaða listgrein sem er í heiminum í dag. Fólk úr þeim ranni leggur mikilvægan skerf til heimsmenningarinnar og framþróunar lista. Þetta fólk fær verðlaun, þiggur starfslaun og styrki, kennir og nemur við háskóla og síðast en ekki síst gleður það um allan heim einbeitta áhorfendur, eins og þá 2.500 sem völdu m.a. að hlýða á mitt "sérstaka stílbrot", án allra veitinga (ótrúlegt en satt), í Hallgrímskirkju nú fyrir skemmstu. Finnur Torfi Stefánsson gengur í skrifum sínum óbanginn á hólm við Louis Armstrong, Miles Davis og saxófónleikara heimsins. Spyrjum að leikslokum.

Sigurður Flosason
Höfundur er starfandi tónlistarmaður, aðstoðarskólastjóri og yfirmaður jazzdeildar Tónlistarskóla F.Í.H.

Bloggsafn

Um mig / about me

Myndin mín
Bass player, father, husband, band member, musician, son, brother, hobby photographer, friend, coffee drinker,
    eXTReMe Tracker