16. des. 2004

Pistill um Doors Tribjútið.

Rakst á þennan pistil um tónleikana þann 9. des. Eftir Benedikt Jóhannesson.

Snillingar á Gauknum (BJ)

"Síðastliðið miðvikudagskvöld hefði Jim Morrisson, söngvari The Doors orðið 61árs hefði hann lifað 34 árum lengur en hann gerði. Daginn eftir sá ég The Doors tribute band (sem er næstum eins mikið Doors eins og Beach Boys band eru Beach Boys). Ég hefði ekki trúað því fyrirfram hvað þessir tónleikar yrðu mikil upplifun. Hljómsveitin var frábær og áheyrendur ekki síðri.
Hljómleikarnir voru haldnir á Gauk á Stöng sem ég hef ekki farið á síðan Gaukurinn seldi bjórlíki fyrir áratugum. Við vorum snemma í því, komum fyrir tíu, ætluðum ekki að missa af bestu sætunum. Þetta var óþarfa fyrirhyggja því að við okkur blasti borð fyrir framan senuna, en þegar betur var að gáð sáum við að það var frátekið, þannig að við settumst á næsta borð sem var nánast jafngott, við horn senunnar (Gaukurinn er lítill staður). Þar sátum við og drápum tímann í klukkutíma, því að auðvitað byrjaði hljómsveitin ekki klukkan hálf ellefu eins og auglýst hafði verið.
Smám saman fylltist salurinn nema borðið sem var frátekið. Allir virtu þennan miða. Flestir voru á þrítugsaldri sýndist mér, fólk sem var ekki fætt þegar Morrison geispaði golunni. Það kom maður að okkar borði og sagði: "Strákar, má ég ekki sitja hjá ykkur?" og yfir þessu vorum við svo kátir að hann fékk umsvifalaust sæti við borðið. Svo gekk hljómsveitin í salinn, klofaði yfir hátalara og aðrar hindranir og gaf bendingar til tæknimanna um að slökkva diskótekið, kveikja á réttum hljóðnemum og hefja ljósasjóvið. Söngvarinn var grannur og ekki alveg ósvipaður goðinu. Fyrst var spiluð eitthver segulbandsupptaka af hljómleikum heyrðist mér til þess að fá réttu stemminguna. Næst sagði söngvarinn okkur að Morrison hefði átt afmæli í gær og ég gladdist með sjálfum mér því að þá þyrftum við ekki að syngja afmælissönginn. En þá kallaði einhver úti í sal: "Og átt þú ekki afmæli í dag!" og söngvarinn varð að viðurkenna það og bætti svo við: "Ég get ekki hugsað mér neina betri afmælisgjöf en að vera hérna í kvöld og syngja fyrir ykkur." Maður fann hvernig gæsahúðin hríslaðist um salinn allan.
En svo byrjaði ballið. Það er óþarfi að orðlengja það að hljómsveitin var mögnuð. Ég hef ekki séð mikið af þessum þreyttu hljómsveitum sem er verið að flytja hingað en ég þori að fullyrða að þetta fimm manna Doors band hefur slegið þeim flestum ef ekki öllum við. Þeir voru rétt að byrja að spila þegar tveir síðhærðir og skeggjaðir menn gengu í salinn og að borðinu frátekna. Mér sýndist mikið vera gert við þá af staðarhöldurum. Ekki þekkti ég þá vel, en sá þó ekki betur en þarna væri kominn sjálfur frelsarinn og Benjamín heitinn Eiríksson á fimmtugsaldri og því ekki að undra að þeim væri vel fagnað.
Hljómleikarnir voru ein sigurganga fyrir hljómsveitina og auðvitað áheyrendur líka. Það var engu líkara en að hetjurnar væru sjálfar að spila eða jafnvel gott betur. Ég held að ég eigi nánast öll lög sem leikin voru á diskum, en þau voru miklu flottari þarna. Gestir voru þó vel hamdir og líklega engir sérstaklega langt komnir við öldrykkju. Konur á borði fyrir aftan okkur tóku undir í nokkrum lögum, en það var allt mjög pent. Mann fannst hljómsveitin varla byrjuð að spila þegar boðað var örstutt hlé.
Í hléinu skyggndist ég um og þekkti nánast engan. Og þó, Pétur Þorsteinsson vinur okkar, prestur Óháða safnaðarins, var mættur á staðinn. Pétur sagði mér við þetta tækifæri að ég hefði ýtt honum, saklausum sveitadrengnum, inn í hringiðu rokksins með því að lána honum plötur með Emerson, Lake og Palmer og Cream. Pétur hélt reyndar einu sinni yfir mér líkræðu á ræðumennskunámskeiði hjá Hjálmari W. Hannessyni. Ræðunni fylgdi að við útförina ætti að spila I'm so glad. Líklega hefur þetta verið fyrsta prestverk Péturs og tókst ágætlega, nema hvað líkið lifði ræðuna af.
Líklega hefur bjórsala aukist í hléinu. Þjóninn kom til okkar og spurði hvort við værum ekki til í að leyfa þremur stelpum að sitja við borðið hjá okkur. Við féllumst með semingi á það (ég set þetta til öryggis ef Vigdís skyldi lesa pistilinn). Stelpurnar komu svo að vörmu spori en minntu meira á miðaldra frænkur en stelpur. Það truflaði okkur ekkert og þær gættu þess mjög pent að vera ekki í sjónlínu okkar við sviðið. En í því að bandið skeiðaði aftur í salinn bættust tvær frænkur í hópinn. Nú vandaðist málið og miklar stólatilfæringar utan úr sal hófust. Fyrir einhverja tilviljun slasaðist enginn við það og allar fengu sæti. Til hvers veit ég ekki því að um leið og hljómsveitin kom inn stóðu þær upp og veinuðu og dönsuðu það sem eftir var.
Söngvarinn kynnti einstaka meðlimi sveitarinnar og frænkurnar fögnuðu hverjum um sig ákaft og af mikilli innlifun. Við hin klöppuðum kurteislega. Þegar söngvarinn kynnti sig rumdi í Jesúsi á næsta borði: "Nú er þetta ekki Jim Morrisson". Frænkurnar skræktu, hvort sem það var af þessari góðu fyndni eða yfir frammistöðu söngvarans góða. Ekki minnkuðu tilþrifin í hljómsveitinni.
Allan tímann hafði grannvaxin stúlka staðið uppi á sviði með upptökuvél og myndaði goðin. Mér datt í hug að kannski væri þetta bara einhver utan úr sal, það var ótrúlegt hve rólegir spilararnir voru yfir því þó að vélin væri alveg ofan í þeim. Stúlkan var í samræmi við tíðarandann í svo stuttum bol að skein í bert á milli. Þegar hún hallaði sér fram til þess að ná frumlegu sjónarhorni sá ég ekki betur en hún væri komin aðeins á leið, en það hvarf þegar hún hallaði sér afturábak og í ljós kom skraut í naflanum, sem ég get þó ekki lýst nánar enda var ég ekki neitt að fylgjast með henni.
Milli laga var klappað af miklum móð og Jesús ropaði með tilþrifum. Svo var kallað á mann úr sal, Halla leiklistarnema. Frænkurnar kölluðu "Halli, Halli, Halli." Þetta hlýtur að virka mjög hvetjandi á unga tónlistarmenn sem eru að spila fyrir svona rólegan sal á fimmtudagskvöldi að fá slíka hvatningu frá miðaldra frænkum í stuði. Halli söng svo ágætlega og án tilþrifa og uppskar fögnuð. Í lokin var svo sungið "Halli, Halli, Halli" og Jesús ropaði aftur.
Í lokin hafði svo einn áhorfandi enn komist í stuð. Góðærislega vaxinn ungur maður stefndi á sviðið og gerði sig líklegan til uppgöngu en komst ekki vegna hindrana og skorts á hófdrykkju. Söngvarinn sagðist vera með ófrumlegar kynningar, sem satt var, en það bætti úr skák að þær voru stuttar. Í uppklappinu sagði hann fimm sinnum: "Það er eitt lag sem ég man ekki vel eftir, hvað heitir það aftur." Milli þess sagði hann okkur að fyrir 35 árum hefði Jim Morrisson verið tekinn á sviði fyrir að sýna á sér typpið. Þetta uppskar vandræðalegan hlátur og hann segir enn einu sinni: "Hvað heitir lagið aftur?" Benjamín heitinn tók þátt í leiknum og segir: "Syngiði Light my Fire!" en frænkan var ekki jafn vel að sér í poppfræðunum og kallaði: "Það er allt í lagi, sýndu okkur bara á þér typpið!"
En Benjamín heitinn hafði hitt á rétta svarið og hljómsveitin dúndraðist í Light my Fire. Svo sungu frænkurnar afmælissönginn. Stuðið náði hámarki"
.
Benedikt Jóhannesson

Bloggsafn

Um mig / about me

Myndin mín
Bass player, father, husband, band member, musician, son, brother, hobby photographer, friend, coffee drinker,
    eXTReMe Tracker