Sýnir færslur með efnisorðinu annir. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu annir. Sýna allar færslur

26. nóv. 2007

Menn Ársins eru uppteknir menn...

Menn Ársins @ Lundgaard, Denmark

Þá fer að slá í viku síðan Menn Ársins sneru heim á klakann eftir ansi vel heppnaða upptökutörn á Lundgård upptökuheimilinu á Jótlandi. Stíf törn sem maður fann, þegar heim var komið, að hafði tekið þó nokkuð á. En mikið var þetta mikil stemming og skemmtilegt. Mæli með þessu. :)

Skellti til gamans nokkrum vídeó skotum af okkur þar sem við erum við upptökur, allt hrátt og í dogma stíl. ;-)





Svo er Sváfnir með eitthvað líka.

Sice og Andreas Úlfur voru í DK líka en voru þó ekki á Lundgaard. Þetta var í fyrsta skipti sem ég sé ekki frumburðinn daglega. Held við höfum báðir staðið það ágætlega af okkur. Sice náði sér í flensu sem ágerðist og endaði með lungnabólgu sem hún er rétt að jafna sig á núna. Þannig að það er svo sem ekki mikið búið að gerast hér eftir að heim var komið nema að hjúkra konu og annast soninn, og reyna að safna kröftum.

En jú jú .. það var í nógu að snúast hjá Mönnum Ársins um helgina. Við spiluðum á Hressó á föstudaginn og svo fluttum við lagið hans Tóta í undankeppni júróvisjón á laugardeginum og svo spiluðum við á Café Aróma þar á eftir.

Lögin sem ekki komust áfram á laugardaginn geta ennþá komist áfram í keppninni. Rás 2 stendur fyrir kosningu um hvort lagið fer áfram. Úrslitin verða gerð kunn um kl. 15. í þættinum Helgarútgáfunni á laugardaginn. Hægt er að kjósa alla vikuna.

If You Were Here (hlusta)
Þórarinn Freysson (höfundur)
Símanr.: 900 2202 (kjósa)



En það er ekki að spyrja að nördunum lagið er strax komið á YouTube. Tékk it.



17. okt. 2007

Stíf helgi

Jú, helgin var þétt eins og lesa má í pistlinum hér á undan. Upptökur á júróvisjón lagi Tóta gengu vel og munu halda áfram á næstu dögum/vikum.

Um helgina var ég með í láni Mark Bass magnara og box til prufukeyrslu. Einn 15" hátalari (á gólfi) + 2x10" box þar ofan á og svo 500w magnari með lampaformagnara. Þetta kom nú í heildina bara vel út held ég, og finn ég og heyri þó nokkurn mun frá Ampeg Portabass 250 magnaranum mínum en hann hefur 1x12" hátalara. Meiri fylling og styrkur til að gera langa sögu stutta.

Talandi um spilamennsku. Það hefur verið allt annað líf að spila á búllunum eftir að reykingabannið tók gildi. Ekki dónalegt að geta jafnvel farið í sömu fötin og maður klæddist kvöldinu áður án þess að kúgast vegna reykingarstybbu. En nú brá svo við að eftir spilamennskuna á Hressó á föstudaginn var hin megnasta reykingarstybba af fötunum, og er það eitthvað sem ætti nú ekki að gerast á reyklausu svæði, nei ég meina veitingahúsi, er það? ... og nei það reykir enginn í bandinu. Hressó hefur komið sér upp ansi misheppnaðri reykingar aðstöðu. Einverskonar plast (sýndist mér) var búið að setja utan um nokkur borð og stóla í garðsvæði staðarinns. Ekki var lokað milli aðalsalarins og garðsins, ergo heilmikinn reyk lagði INN á staðinn, það mikinn reyk að maður fann fyrir því. Vonandi sjá þeir að sér og bæta úr þessari heimskulegu "lausn".

Menn Ársins eru enn við stífar æfingar. Nú höfum við blásið til tónleika á Domo Bar þann 30. oktober n.k. Bæði svona til að setja sjálfum okkur "deadline"/ramma (fyrir upptökurnar) og svo líka til að prufukeyra efnið og leyfa öðrum að tékka á þessu efni okkar með okkur.

Vonumst við til að sjá sem flesta, en frítt inn verður á tónleikana sem ættu að hefjast upp úr kl. 21.

Ef þið viljið kynna ykkur þetta nánar má lesa meira og láta minna sig á þetta á:

Facebook
Myspace
Last.fm

10. okt. 2007

Nú um þessar mundir....

Fyrir þau ykkar sem voru ekki búin að frétta af því, þá er ég núna að njóta fæðingarorlofs sem mun vara fram að jólafríi. Hendugt ha? ;-)

Andreas Úlfur í baði - bw

Þannig það slitnar varla slefan á milli okkar feðga þessa dagana (hann sér um slefið...).

Bassa-feðgar-2

Já margt að gerast hjá Andreas Úlfi. Hann er farinn að rölta um með stuðningi Brio kerrunar sinnar, nú og svo er skriðið um allt að sjálfsögðu og tætt og nagað. A.m.k. 1 tönn komin, og fleiri á leiðinni eins og gengur. Allt að gerast ;-) og það gerist hratt. Babblið þróast og hvað eina. Nýjasta sportið hjá honum er að skrækja/"öskra" af þvílíkum styrk að sker í eyru.... og er ég nú ýmsu vanur í þeim efnum. Þannig að stuð í bæ! :)


Sigurdór - Menn ÁrsinsSváfnir - Menn ÁrsinsDiddi - Menn ÁrsinsHalli - Menn Ársins


Menn Ársins eru í óða önn að æfa frumsamið efni. Við erum búnir að bóka hljóðver á Jótlandi í Danaveldi og munum við læsa að okkur dagana 13.-17. nóvember n.k. Staðurinn er Lundgaard stúdíóið. En þar hafa jú ýmsir íslenskir tónlistarmenn hljóðritað nýlega, Magni og Jagúar svo dæmi séu tekin. Lundgaard hljóðverið er staðsett hér.

Sigurdór grænn bakgrunnur multiplyHalli rauðurbakgrunnur overlay
Sváfnir blár bakgrunnur overlayDiddi gulur bakgrunnur overlay

Menn Ársins eru að spila núna um helgina. Á föstudaginn erum við á Hressó og hefjum við leik um kl. 22:00 og á laugardaginn erum við á Café Aroma í Hafnarfirði og byrjum við að spila um miðnættið.
... og ekki nóg með það heldur verðum við "uppteknir" frá hádegi á laugardag niðrí Stúdíó Sýrlandi þar sem við munum hljóðrita lag eftir fyrrum bassaleikara Manna Ársins, Þórarinn Freysson heitir hann.



Lagið komst inn í forkeppni Evróvision Söngvakeppninar (sjá: Laugardagslögin á RÚV), og höfundirinn er fjarri góðu gamni á Englandi, þannig að Mennirnir hlupu undir bagga.


Að því er ég best veit verður lagið flutt í þættinum Laugardagslögin þann 24. nóvember n.k.

Þannig að ... í nógu að snúast. Skemmtilegir tímar framundan, eins og alltaf. ;)

4. jún. 2007

Sumarfrí.

Vei.

Það var í nógu að snúast seinust vikuna í skólunum fyrir sumarfrí. Kennarafundir, skriffinnska, skólaslit og kennarahittingar (myndir koma síðar).

Menn Ársins spiluðu á "UPPSKERUHÁTÍÐ HESTAMANNAFÉLAGSINS SÖRLA 2007" um helgina. Óli Hólm sat í trommustólnum sem afleysingamaður fyrir Didda.

Spurning hvort það væri farsælt að staðfæra texta/lög fyrir hvert tilefni..?! Þá hefði fyrsta sett litið svona út.

50 Ways to leave your horse
Solsbury horse - Peter Gabriel
Ride together - Beatles
(If you love horses) Set them free - Sting
Horse with no name - America (ömm....)
Heard it through the horsefence
Horse of gold
It's my horse – Talk talk
horsy afternoon - Kinks (nah...)
Horse in the sky – Alan Parsons project
Logical horse - Supertramp
Joker - Steve Miller Band (.....hmmm)
Horse Police - Radiohead
500 miles (on a horse) - Proclaimers
Give a little horse - Supertramp
Horse in a bottle - Police
Don't let me down (on a horse)- Beatles
I wish (me a horse), Stevie Wonder
Clocks - Coldplay (...hmmm)

Ég hefði kannski átt að klára fyrsta kaffibollan í sumarfríinu áður en ég skrifaði færsluna... :-)
Annars er garðurinn hjá mér fullur af unglingum sem eru að taka hann í gegn. Ég var vakinn upp (og restinn af familíunni) við ghettóblaster á fullu og sláttuorf á fullu gasi, allt allt of snemma (verandi B mannseskja (ef ekki C), í sumarfríi).

Já... sumarið er.... tíminn..... til að slá gras.

23. maí 2007

Endasprettur .... nóg að gera!

Nóg að gera þessa dagana. Skólastarfið er á endasprettinum.
Samspilin mín í Reykjanesbæ og Mosfellsbæ héldu sameiginlega tónleika á Domo á laugardaginn og háði ég þar mitt fyrsta "gigg" á trommusett með Mósó-bandinu sökum skyndilegs forfalls trymbilsins, var það og hressandi. Böndin stóðu sig mjög vel og mega vel við una.
Menn Ársins spiluðu síðan á Hressó um kvöldið, stemmingin góð að venju.

Verst hefur mér þótt að missa af nokkrum tónleikum sem mig hefur langað að kíkja á, en svona er þetta stundum, ekki hægt að vera allstaðar.

Á mánudaginn voru deildartónleikar hjá rafbassanemendum í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar. Þeir sömu heyja svo árs- og stigspróf í dag (miðvikudag), Mosfellingar svo á föstudag.

hmmm... hvað meira .. jú kominn með miða á E.S.T. .... vííí!
Svo verður félagslífið með blóma á næstunni, afmæli og innflutningspartí svo fátt eitt sé nefnt! Talandi um afmæli ... þá er 23. maí eitthvað kunnuglegur í því sambandi.


(klikkið hér til að sjá myndina stærri)




Sumarið fer að bresta á.....!

16. feb. 2007

Setið á strák sínum...


Sice, week 40
Originally uploaded by Siggidóri.

Við fórum í mæðraskoðun í gær og fengum þær fréttir að barnið væri engan vegin komið í höfuðstöðu (eins og metið hafði verið í vikunni áður, ...hvað þá skorðað) heldur væri það "sitjandi".

Það var því hlaupið til og pantaðir tímar til að vega og meta stöðuna betur. Deginum í dag var varið upp á spítala þar sem móðir og barn voru mæld og metin hátt og lágt. Einnig var gerð tilraun til að snúa barninu, en það gekk nú ekki eftir. Vending er það víst kallað.

Það er víst þó nokkur hætta á að þessar aðfarir hrindi af stað fæðingu og hafði Sice því verið fastandi frá miðnætti ef gera þyrfti bráða keisaraskurð. Einnig fékk hún sprautu sem á að minnka líkurnar á að fæðingin fari af stað meðan að vendingin er reynd. Efni sprautunar getur verkað svipað og adrenalín, með handsjálfta og tilheyrandi, þannig að þetta voru smá átök. En allt kom fyrir ekki. Vendingartilrauninni var snarlega hætt þegar hjartsláttur barnsins fór lítilega niður. Meðan á þessu stóð var stöku sinnum ómskoðað til að athuga stöðuna og þóttumst við þá sjá hvert kynið var, en sögðum þó ekkert þegar þarna var komið við sögu.

Sice at the hospital

Síðan þurfti að fylgjast með móður og barni í sírita (monitor) í drjúgan tíma til að úr skugga um að allt væri með felldu.

Þegar þarna var komið við sögu fengum við að fara og fá okkur í gogginn, við kíktum á Hornið og sjáum eftir því. Rándýr og lélegt. Ég pantaði mér eitthvað rjómapasta krap.. sem kostaði 2000 og ég var með meltingartruflanir og bakflæði í allan dag út af þessum viðbjóði. Svo reyndu þeir að selja mér DJÚS sem appelsínu safa... fyrir 360 kr.... get real!!

En... aftur upp á spítala. Nú tók við meiri mónitor og svo fórum við í ómskoðun þar sem barnið var mælt bak og fyrir og síðan í röntegenmyndatöku til að mæla grind móðurinnar. Við fengum að taka með heim eina röntgen myndina, þar sem barnið sést mjög vel. Stórskemmtileg mynd.... vona að ég geti birt hana hér fljótlega.

Monitoring

Já og... kynið barnsins var svo endanlega opinberað í ómskoðuninni........



STRÁKUR .... á leiðinni! :-)

Svo var farið yfir mælingarnar og staðan metin. Líklegast látum við reyna á eðlilega fæðingu. Svo verður bara gripið inn í ef þurfa þykir. En þetta skýrist nú betur fljótlega.

Lifemarks

Þannig að við vorum á spítalanum frá 09:30-16:00, komum dauðþreytt heim og fengum okkur lúr. Svo rumskaði ég til að fara á æfingu með Mönnum Ársins.

Jeps... nóg að gera. Talandi um... þá var ég að spila í Söngkeppni M.S. í gær sem var ansi vel framkvæmd. Bandið gott og stemming. Smá stress fyrir sándtékkið/rennslið þar sem mæðraskoðunin var akkúrat rétt fyrir og bjóst ég jafnvel við á tímabili að þurfa
að beila á pakkanum. En það fór allt vel.

25. des. 2006

Jóla hvað...?!

Jæja... long time no bloggin'.

Það voru miklar annir í Desember svona eins og vera ber. 115% kennsla að venju (+jólatónleikar o.s.frv.) + spilerí og æfingar. Æft með Mönnum Ársins og Matta, svo voru Mennirnir og Nettettinn með sitt hvort giggið. Svo þetta venjulega, klára að finna/kaupa jólagjafir og svona.
Þannig að nú er bara mjög vel þegið að slappa af og láta hugsa um sig.

Annars er kominn inn slatti af myndum á Flickr síðuna mína.

T.a.m. frá afmælisveislu Arnars Freys frænda míns, en hann varð einmitt 3 ára í gær, til hamingju með það!

Frá: Tónleikum Laser á Rósenberg.

Frá: Útgáfutónleikum Jóels Pálssonar á Domo Bar.

Matti, Jóel & Valdi @ Domo Bar
Laser @ Café Rósenberg
The life of the party!


Ég vona að þið eigið góð og afslöppuð jól. Glædelig jul!

Bloggsafn

Um mig / about me

Myndin mín
Bass player, father, husband, band member, musician, son, brother, hobby photographer, friend, coffee drinker,
    eXTReMe Tracker