24. nóv. 2004

Ný bók eftir Dr. Ágúst Einarsson prófessor um hagræn áhrif tónlistar

Viðskipta- og hagfræðdeild Háskóla Íslands hefur gefið út nýja bók eftir Dr. Ágúst Einarsson prófessor um hagræn áhrif tónlistar. "Hagræn áhrif tónlistar" er fyrsta bók sinnar tegundar á Íslandi. Í ritinu lýsir Ágúst því hvernig tónlist er umtalsverður þáttur í hagkerfi þjóðarinnar.

Framlag menningar til landsframleiðslunnar er 4%, sem er meira en öll starfsemi raf-, hita- og vatnsveitna og nær þrefalt meira en landbúnaður eða ál- og kísiljárnsframleiðsla. Um 5.000 manns starfa við menningu hérlendis, sem er álíka fjöldi og starfar í útgerð eða í hótel- og veitingarekstri. Hinar skapandi atvinnugreinar verða sífellt mikilvægari í hagkerfinu.

Um 1.200 manns vinna við tónlistariðnað, sem er tæplega 1% af íslenskum vinnumarkaði. Fyrirtæki í tónlistargeiranum velta um 6,5 milljörðum kr. á ári og framlag tónlistar til landsframleiðslunnar er um 1%. Um 43 milljörðum kr. var varið af einkaneyslu árið 2003 í menningu og er hlutur tónlistar þar af um 8,5 milljarðar kr.

Tónleikum hefur fjölgað verulega undanfarin ár, sérstaklega á landsbyggðinni, og er klassísk tónlist langalgengust. Fjöldi tónlistarskóla hefur nær sexfaldast síðustu fjóra áratugi og eru þeir nú 80 talsins. Nemendafjöldi í tónlistarskólum hefur ellefufaldast síðustu fjóra áratugi og nemendur eru nú 12.000 talsins. Tugir kóra starfa á landinu og eru kórfélagar yfir 3.000 talsins.

Jafnframt eru í bókinni stutt æviágrip 50 einstaklinga sem hafa sett svip á íslenskt tónlistarlíf síðastliðin 100 ár. Mikill fengur er að þessari bók fyrir alla sem láta sig menningu, og þá sérstaklega tónlist, varða. Dregnar eru ályktanir af þessari rannsókn um næstu skref til þess að efla enn frekar þátt tónlistar í samfélaginu.

Ágúst Einarsson er prófessor í Viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands. Hann á að baki fjölbreyttan feril. Hann nam rekstrarhagfræði í Hamborg í Þýskalandi og er með doktorsgráðu í hagfræði. Hann starfaði sem framkvæmdastjóri við útgerð og fiskvinnslu, sat á Alþingi um árabil og hefur gegnt fjölmörgum trúnaðarstörfum, m.a. stjórnarformennsku í fjölmörgum fyrirtækjum, forustustörfum í stjórnmálum, formennsku í bankaráði Seðlabanka Íslands og starfi deildarforseta í Háskóla Íslands. Ágúst hefur ritað mikið um rekstrarhagfræði, sjávarútveg og menningu.

Bloggsafn

Um mig / about me

Myndin mín
Bass player, father, husband, band member, musician, son, brother, hobby photographer, friend, coffee drinker,
    eXTReMe Tracker