16. júl. 2005

Úr sambandi....

við umheiminn næstu daga. Eða a.m.k. hinu víðfemna alheimsneti. Býst ekki við að sjá rafpósta né önnur skila boð í amk nokkra daga. Ef ekki nokkrar vikur.

Við Sice erum nánast gjörsamlega flutt í Dísaborgirnar. Bara smá drasl eftir úr kjallaranum í Skeiðarvoginum. Svo þarf að þrífa holuna líka.

Annars förum við til Danmerkur 23. júlí og verðum til 31.

Malus mun dunda sér við upptökur á mánudaginn er ég best veit, svo verða tónleikar á Hressó fimmtudaginn 21. og svo aftur sunnudaginn 31. (verslunarmannahelgi). Frítt verður inn.

Sjáumst síðar.

12. júl. 2005

Blóð, sviti og tár og aðrar raunir hins stritandi tónlistarmanns


Ekki fitnaði Malus hrossið við að skeiða á völlum Kaffi Kúltúrs fyrr í kvöld. Það hlýtur að hafa verið eitthvað gríðarlega gott í sjónvarpinu. Sérlega slök mæting, ekki beint hvetjandi. Þakka þó þeim sem litu við. Stór tapaði reyndar á þessu þar sem ég lagði bílnum á stéttinni fyrir framan Kaffi Kúltúr rétt á meðan ég henti magnaranum og draslinu inn. Fór svo að rigga upp draslinu og þannig. Fékk þessa feitu sekt. Heildar "gróði" í kvöld, -2000 kr. (MÍNUS TVÖÞÚSUNDKRÓNUR). Þá tek ég ferðakostnað og almennt slit ekki með.

Annars eyddi ég deginum að mestu í snatt og snúninga sem varða flutningana. Kaupa hitt og þetta og færa drasl. Með dyggri aðstoð foreldra minna. Hvar væri maður án þeirra...??

Malus á Café Kúltúre í kvöldMalus leikur ljúft jazzað popp, r&b, funk, jazz og sitthvað fleira á Kaffi Kúltúr (á Hverfisgötu, gegnt Þjóðleikhúsinu) þriðjudagskvöldið 12. júlí kl. 21:00.
(Í KVÖLD.....!)

Malus skipa:
Ása Bjarnadóttir - söngur
Birgir Baldursson - trommur
Sigurður Rögnvaldsson - rafgítar
Sigurdór Guðmundsson - rafbassi.

Aðgangseyrir er 700 kr.

11. júl. 2005

mp3 blog: Ella Fitzgerald - Sunshine Of Your Love

Jazzarar eru nú vanir að taka hin ýmsustu lög upp á sína arma. Ég hef þó ekki heyrt þessa útgáfu af Sunshine Of Your Love með Ellu Fitzgerald sem www.diddywah.blogspot.com birti um daginn.

Gamlir hippar og rokkarar sem og aðdáendur Eric Clapton ættu a.m.k. að þekkja slagarann.

Aðra útgáfu af "Sunshine of Your Love" má heyra á www.soul-sides.com

6. júl. 2005

Ameríski kvartett Keith Jarrett

er til umfjöllunar á mp3 blogginu etnobofin.blogspot.com. Óhætt að mæla með þeirri eðal músík. Tilvalið fyrir ókunnunga að kíkja á bloggið og kynna sér kvartettinn. Good stuff.

5. júl. 2005

Blár og allir litir regnbogans....

Strengirnir sem ég pantaði skiluðu sér í dag. Kominn tími á það. Annars bara almennt hösl og ræktin síðdegis.
Fór á tónleika á Cafe Kulture í kvöld, Þóra Björk og co. Malus verður þar svo að viku liðinni. .... nú og .. tja ...!


(c) www.markstivers.com

Kiddi bloggar...

Kiddi trommari er kominn í hóp bloggara og býð ég hann sérlega velkominn.
www.snerillinn.blogspot.com
Hann fær að sjálfsögðu link á kantinn. Annars fara þessir linkar að vera þreyttir. www.bloglines.com rúlar...!!!

Síðbúinn pistill um tónleika ferð Amalgam um Jótland í apríl sem leið

Við félagarnir, Siggi Rögg og ég, héldum til Danmerkur eldsnemma að morgni dags þann 16. apríl síðastliðinn. Ekki var nú mikið sofið frekar en vanalega fyrir svona morgun flug. En við vorum í góðum fíling. Það komst reyndar í fréttirnar að eitthvað misheppnað fólk var með stæla og hótanir í vélinni eða s.k. “ólæti”. Ekki tókum við nú mikið eftir þessu ,enda sáttum við það langt frá þeim. (Okkur var nú samt boðið upp á áfallahjálp síðar.) Einhverjir komu þó fram þar sem við sátum og voru eitthvað að tala og benda aftur í vél. EN ég sá þetta lið þegar það kom í vélina. Leyndi sér ekki ólifnaðurinn, vel lifuð andlit þar á ferð.

Svo lendum við heilir á húfi í Kaupmannahöfn, smeygðum okkur nettlega framhjá dönsku löggunni sem var kominn til að tuska ruslalýðinn. Skömmu síðar sátum við svo í lestinni á leið til Århus. Mig minnir að við höfum bara verið vakandi alla ferðina, mikið spjallað um heima og geima. Alltaf gaman þegar gott næði og tími gefst til þess.

H.C. tók svo á móti okkur á lestarstöðinni í Århus. Veðrið var alveg frábært. Sól og blíða. Við héldum svo nánast beint í piparsveinsíbúð þeirra félaga Mortens og H.C. við Falstergade. Fljótlega var farið að tala um að það væru nokkur samkvæmi um kvöldið sem við gætum tæklað. Það hljómaði nú svona mátulega spennandi á þeim tímapunkti, enda við félagarnir búnir að vera á ferðalagi í 12 tíma og lítið sofið nóttina á undan.

Svo snæddum við pottrétt frá mömmu hans H.C. (góð þjónusta, ha?) um kvöldið. Svo kom Jesper og kíkti á okkur, við höfðum reyndar ekið fram hjá honum þegar við komum af lestarstöðinni fyrr um daginn og kastað á hann kveðju þá. En gaman að hitta Jesper aftur, sem og alla hina náttúrulega. Svo var farið að líta allnokkuð ískyggilega út fyrir að piparsveinarnir ætluðu að draga okkur í teitin. Þannig að það var bara að undirbúa sig andlega og líkamleg undir átökin.

Við fórum svo í einhver samkvæmi, misskemmtileg svona eins og gengur en maður hélst a.m.k. vakandi. Við leituðum reyndar heillengi að einu húsinu sem átti að vera til teitis. Fannst á endanum. Þar var nokkuð af liði sem ég þekkti úr Konservatoríinu. Svo leið nóttin, H.C. fór heim og Morten til sinnar spúsu (sem býr annarsstaðar) en Siggi og ég fórum niðrí bæ að fá okkur í gogginn. Þá vorum við búnir að vera vakandi í sólahring. Orðnir vel sveittir og áttavilltir. Tókum taxa heim en hefðum verið 5 mín að labba ef við hefðum áttað okkur. Við komum okkur í piparsveina holuna á endanum. Hófst þá mikil glíma við meintan svefnsófa sem við félagarnir áttum að deila bróðurlega. Eitthvað gekk það treglega (don’t drink and unfold sofas kids!!), niðurstaðan varð sú að ég tæki rúm Mortens og Siggi þreytti sófann. Nóg um það.

Það var því þreytulegur hópur sem hóf æfingar í einu herbergi DJM upp úr hádegi næsta dag. Nema Sören, hann var með gigg kvöldið áður og var því hinn hressasti. Vinnan göfgar manninn. Æfingin gekk annars bara nokkuð vel. Fórum í nokkur ný lög. H.C. og Morten lögðu til eitt nýtt lag hvor. Ég hafði nú reyndar vonast eftir aðeins meiri afköstum en það. Ég kom með 2 ný. Restin var svo efni sem við höfðum spilað þegar þeir komu til Íslands í ágúst í fyrra. Eins og ég segi þá gekk bara vel að koma þessu saman. Mesta furða. Æfðum sem sagt upp 11 laga efnisskrá með frumsömdu efni.

Svefnsófinn ógurlegi beið okkar svo um kvöldið. Reyndar aðeins betur fallin til svefns en kvöldið áður. En ekki mikið olnboga rými. Svo voru engin gluggatjöld í stofu þeirra “bræðra” þannig að ekki nóg með að við svæfum þunnt þá vöknuðum við (eða vorum milli svefns og vöku) frá sólarupprás, plús það að einhverjar gatnaframkvæmdir voru í gangi rétt fyrir utan stofugluggann, sem stoppaði þó ekki vegfarendur í að gjóa á okkur augum, tvo hálfnakta karlmenn í góði chilli. Hresst.

Við æfðum svo milli kl. 12:00 og 17:00 á mánudeginum, þar sem við renndum yfir efnisskránna.

Ferðinni var svo heitið til Holstebro. Ég hafði hugsað mér gott til glóðarinnar og ætlaði að bæta mér upp svefnleysið að einhverju leiti á leiðinni. EN okkar kæri Morten var í ofvirkni-kasti (sem kom til vegna slagverkstíma, sem að hans sögn kveikja í honum) alla leiðina og létt öllum illum látum með smá aðstoð frá Sören sem átti þó ekkert í hann.

Þar spiluðum við á tónleikum kl. 21.00 um kvöldið. Tvö sett leikin. U.þ.b. tvisvar sinnum 45 mínútur. Um það bil 30 manns mættu á tónleikana, sem þykir nokkuð gott þar fyrir óþekkt band. Flestir gestanna voru úr tónlistarskólanum þar í bæ. Sören hafði jú verið í þeim skóla og var hann einnig kynnir kvöldsins. Giggið gekk sæmilega. Morten var óvenju súr í leik sínum, Siggi glímdi við slitna strengi og ég glímdi við að falla ekki sofandi á andlitið. En mjög gaman engu að síður.

Svo héldum við heim og þegar hér var komið við sögu þá höfðum við félagarnir grenjað okkur inn á gæðablóðið Sören sem (ásamt sambýliskonu sinni) sá aumur á okkur og leyfði okkur að gista í stofunni heima hjá sér. Þvílíkur munur. Allt annað líf. Þrátt fyrir að enn væri sofið á sófa og á gólfi.

Daginn eftir röltum við um miðbæ Árósa (við gerðum það reyndar daginn áður einnig) og kíktum í búðir. Á þriðjudagskvöldinu héldum við svo aðra tónleikana og voru þeir á Studenterhuset í Århus. Leikinn tvö 45 mínútu sett. Þessi staður er tiltölulega nýlega farinn að halda tónleika þannig að fólk er svona að uppgötva hann og því erfitt að treysta á mætingu. U.þ.b. 30 manns mættu á tónleikana. Þar á meðal gamall skólafélagi Sigga og hans kona og svo kom tengdapabbi minn og hans kona einnig. Fallega gert af þeim að bregða sér bæjarleið til að kíkja á okkur (þau búa í Kjellerup). Ekki varð ég var við neitt annað fólk (fyrir utan krakka frá Konservatoríinu) sem ég þekkti. Laila blessunin sendi mér þó sms og var mjög hrygg yfir því að komast ekki. Annars var þetta, skildist mér, mikill próf/verkefna tími í skólum á þessum tíma. En giggið gekk prýðilega, Morten hóflegri í sýrunni og allt samspil þrepinu þéttar.

Ég reyndi svo að sannfæra þá um að kíkja svo á blúsdjamm á Fatter Eskil eftir tónleikana. Gítarhetjan var til í það, en danirnir voru ekki alveg á þeim buxunum.

Daginn eftir, á miðvikudeginum, héldum við svo til heimabæjar H.C., Vejle. Þar spiluðum við á stað sem heitir Jive. Tónleikarnir voru hluti af tónleikadagskrá staðarinns. Spiluðum með öðru bandi sem er frá Óðinsvé og heitir Christian Ki Kvartet. Á tónleikana mættu 47 manns. Spiluðum eitt langt sett, u.þ.b. klukkutíma með uppklappslagi. Fengum bara góðar viðtökur. Hitt bandið tók upp tónleikana og er hægt að nálgast þær upptökur á rokk.is, eða bara hér fyrir neðan. Gert var vel við okkur í mat og drykk á staðnum, mjög gott allt saman. Bassaleikari Christian Ki Kvartet er reyndar ½ íslenskur og heitir Richard Guðmundsson. Pabbi hans er frá Vestmannaeyjum. Svo var hann líka alblindur. Hafði misst sjónina í flugeldaslysi fyrir nokkrum árum. En flinkur bassaleikari og næs gaur sem og aðrir þarna á svæðinu. Hann ætlaði reyndar að heimsækja skerið í sumar, fékk netföng hjá mér og Sigga og ætlaði að vera í bandi. Ég hef a.m.k. ekki heyrt frá honum enn, veit ekki um Sigga.

Svo rabbaði ég lítillega við fólk sem var viðloðandi þennan jazzklúbb. T.d. miðaldra konu sem kennir á bassa þar í bæ (Vejle). Henni þótti bassaleikur minn sérstaklega “íslenskur”, hvað svo sem það þýðir. Hún spurði víst svo H.C. eitthvað út í 5. strenginn á bassanum mínum. Hún hafði ekki hugmynd um virkni hans. Spes... og hún kennir á bassa. Hehe. Svo var einhver gaur þarna líka sem ég held að hafi verið bassaleikari, hann fór eitthvað að tala um Jaco (kallaði hann reyndar Miroslavus). Ég var nokkuð viss um að hafa séð nýjan disk með Miroslav Vitous (sem var fyrsti bassaleikar Weather Report) daginn áður. Honum þótti það eitthvað ótrúlegt þar sem hann hefði verið látinn í hátt í 18 ár. Ahhhhh.... þú meinar Jaco. Hresst!!!

Svo fórum við heim til bróður H.C. sem býr í Vejle. Þar fengum við okkur nætursnarl og öl. Hlustuðum á upptökurnar og skoðuðum myndir. Annars var ég ekki í neinu stuði enda orðinn langþreyttur eftir keyrslu seinustu daga. Ég fór því fyrstur í háttinn, fyrir utan Jesper (sem, vel á minnst, var með okkur í Vejle) en hann var svona “öðruvísi” þreyttur. Ég fékk svo að gista í alvöru rúmi og Sören kom svo skömmu síðar og þreytti gólfið.

Daginn eftir skiluðum við svo öllum græjum og bílnum sem við höfðum leigt. Við Siggi þurftum að finna okkur nýjan næturstað þar sem ekki gat Mehlsen hýst okkur lengur. Ekki langaði okkur til piparsveinanna blessaðra. En Jesper öðlingurinn bauð okkur til sín. Við hugðumst leggja okkur og fara svo að borða. En eftir smá pælingar ákváðum við bara að fara til Álaborgar og leigja okkur hótel herbergi þar. Við áttum sem sagt miða á tónleika með Kurt Rosenwinkel þá um kvöldið. Gáfumst við upp á að reyna að fá þá félaga til að koma með okkur eða fara á bílnum sem við vorum með í leigu. Kom líka bara svipað út í verði minnir mig. Þannig að við þeystum til Ålborgar, “med det same!”

Þegar þar var komið fundum við hótel sem var í hrákafjarðlægð frá brautarstöðinni og í röltfæri frá tónleikastaðnum. Mjög hentugt. Tókum smá blund og sturtu og snæðing og fórum svo á tónleikana. Winkillinn er magnaður spunameistari og nokkuð vel slægur með gígjuna. Meðreiðarsveinar hans voru jú líka prýðilegir. Kannski soldið litlausir. Mark Turner er fínn spilari en er kannski ekki mikið að kveikja í manni þannig séð. Sá sem kom þó skemmtilegast á óvart var trymbillinn, Ari Hoenig. Þvílík sjálfstjórn og nettleiki í þó miklu “chops” spili. Magnaður spilari þar. Skemmtilegir tónleikar. Sigginn tók sig svo til og heilsaði upp á hetjuna. Rock on!!!
Síðan þræddum við Jomfru Ane Gade í Ålborg en það er mögnuð bar- og skemmtanastaða gata frá A-Ö. Ekki svo sem mikið þar að sækja fyrir okkur vitleysingana. Þannig að við fórum fljótlega heim á hótelið. Hittum færeyska homma (að þeirra sögn) á rölti okkar. Þegar við spurðum um “action”, nefndu þeir fyrrnefnda götu og að þar væru allar tjellingarnar. Annar okkar (hann notar gleraugu) sagði að við værum ekki mikið fyrir stelpur hvort eð er, (þetta hljómaði aðeins öðruvísi á enskunni). Þetta þótti okkur svo fyndið þegar ég leiddi ferðafélaga minn í sannleikann um kynhneigð þeirra félaga. Ég man reyndar ekkert af hverju mér þótti það augljóst á þeim tíma (held að það hafi verið að þeir sögðu heldur ekki vera fyrir konur). Skiptir ekki máli.

Við tókum svo lestina til Århus daginn eftir (á föstudeginum) gerðum þar stuttan stans og hittum félaga okkar í Amalgam sem og Jesper og kvöddum þá með virktum. Siggi fór til Óðinsvéa til að hitta vin sinn þar, en ég hélt áfram til Köben þar sem ég ætlaði að hitta Esben bróðir hennar Sice og fá að gista í herbergi á heimavistinni sem hann er í. Hann er í heimavistarskóla í útjaðri Kaupmannahafnar þar sem hann æfir einnig róður af kappi. Esben er eðalgaur heim að sækja, fengum okkur að snæða og tókum svo rölt í meðfram vatninu og skóginn þar í kring og spjölluðum saman. Annars var bara slökun hjá mér. Vel þegið að vera í svona líka mjög svo kyrrlátu umhverfi eftir amstur vikunnar.

Við Siggi hittumst svo á Kastrup daginn eftir. Þar hittum við einnig meðlimi Hjálmanna sem voru einnig á heimleið, þá Kidda gítarleikara, Steina söngvara/gítarleikara og Gúnda ljósmyndara sem eltir þá drengi jafnan. Þeir voru að koma frá Svíþjóð þar sem þeir voru að spila. Við styttum okkur svo stundir saman, því umtalsverðar tafir urðu á fluginu. Annars var ferðin heim algerlega viðburðasnauð.

Þannig var nú það.

Vonandi verður meira Amalgam brölt á næstu misserum. Sjáum hvað setur í þeim efnum.

Mp3 af tónleikunum Amalgam @ Jive Jazz Club, Vejle Danmörku. 20. april 2005.

1. Ansans Ananas Asnans
2. Andlaus
3. Cry Baby
4. You Turn
5. Calm Mouse
6. Undercover James
7. After All


Ég þakka þeim sem hlýddu!

OG HÉR KOMA NOKKRAR MYNDIR:Siggi í lestinni.

H.C. og Jesper

Ferðalúnir vinirnir hjá piparsveinunum.

Danskur mömmu matur.

Kokkurinn síkáti.

Ekki má gleyma minnsta klósetti á norðurlöndum þar sem sturtan er smá slanga. Verst að það sést ekki á myndinni (það er svo lítið að það festist ekki á filmu).

Siggi að hita sig upp.

Kasper hinn káti píanóleikari og H.C.AAhh,,,, I know you .... Isildur ..

hc

Skuggaleg stund í Risskov

SG og HC

H.C a.k.a. Undercover James

Inngangurinn að piparsveinaíbúðinni.

Gatnaframkvæmdirnar.

Pant vera þreytulegur.DJM

Damn... do I have to play this shit.

Alltaf gaman á æfingu.Svefnsófinn frægi.

Siggi í fíling á Woodstock Guitars.

Morten í ofvirknikasti.

Hluti tónleikagestana á Holsterbro tónleikunum.

Morten og H.C. - Holsterbro

Heima hjá Mehlsen.

Amalgam í Århus.

Ég að tjatta við tengdó og konu hans í hléinu.

On the road

Richard bassaleikari til hægri.

Christian Ki Kvartet

Morten

Amalgam

Sören

Amalgam í Vejle.

Siggi í ham

Siggi og Jesper

Amalgam og báturinn hans HC

WinkillinnÁ heimavistinni í Köben.

Gummi ljósmyndari og Kiddi í Hjálmum á Kastrup.

Steini sönglaði meðan beðið var eftir fluginu.

Bloggsafn

Um mig / about me

Myndin mín
Bass player, father, husband, band member, musician, son, brother, hobby photographer, friend, coffee drinker,
    eXTReMe Tracker