7. sep. 2004

Enginn poppskóli

Rakst á þessa grein á mbl.is Greinin birtist laugardaginn 6. desember, 2003.

Yfir hundrað bíða eftir að komast í nám hjá Tónlistarskóla Reykjanesbæjar

"Enginn poppskóli"

Reykjanesbær | Yfir eitt hundrað manns er á biðlista eftir að komast í hljóðfæra- og söngnám hjá Tónlistarskóla Reykjanesbæjar.



Um 650 nemendur eru nú í skólanum, þar af rúmur helmingur í forskólanámi í húsnæði grunnskólanna fjögurra.
Nú er uppskerutími í tónlistarskólum landsins. Það heyrist meðal annars í húsnæði Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, tónlist ómar úr stofunum. Hljómsveitirnar og einstakir hljóðfæranemendur halda tónleika fyrir jólin, til að leyfa fjölskyldunum og bæjarbúum að heyra hvað bæst hefur við þekkinguna.

"Öll börn í fyrsta og öðrum bekk grunnskólanna eru í forskóla á vegum Tónlistarskólans," segir Haraldur Árni Haraldsson, skólastjóri Tónlistarskóla Reykjanesbæjar. Kennslan fer fram í húsnæði grunnskólanna. Einnig hljóðfærakennsla þeirra nemenda grunnskólanna sem halda áfram, allt upp í sjötta til sjöunda bekk, en sú kennsla er hluti af samfelldum skóladegi. Haraldur segir að starfsaðstaðan hafi gjörbreyst við einsetningu skólanna. Við þær breytingar hafi verið gert ráð fyrir aðstöðu fyrir tónlistarnámið og nú séu þrjár stofur fyrir hljóðfærakennslu í öllum grunnskólunum auk stofu fyrir forskólakennslu. "Við erum ákaflega stolt af því hvað vel hefur verið staðið að þessu," segir Haraldur.

Önnur hljóðfærakennsla fer fram í húsnæði Tónlistarskólans á Austurgötu 13 í Keflavík þar sem Tónlistarskóli Keflavíkur var til húsa fyrir sameiningu skólanna og Þórustíg 7 í Njarðvík þar sem Tónlistarskóli Njarðvíkur hafði starfsemi sína. Haraldur Árni segir að aðstaðan í þessum húsum sé afar bágborin enda hafi þau verið byggð sem atvinnu- og íbúðarhúsnæði. Mikil þrengsli séu þar síðdegis, þegar nemendur komi í bóklega tíma og á hljómsveitaæfingar og eldri nemendur mæti í hljóðfæra- og söngtíma, auk þess sem mikill hljóðleki sé milli stofa, einkum við Austurgötu.

Þetta stendur þó til bóta því í undirbúningi er bygging tónlistarmiðstöðvar þar sem aðstaða verður fyrir tónlistarskólann og Poppminjasafn Íslands. Nefnd á vegum bæjaryfirvalda vinnur að undirbúningi málsins og hefur meðal annars það verkefni að athuga hvort hægt sé að koma slíkri aðstöðu upp í tengslum við félagsheimilið Stapa.

Haraldur Árni segir að miðað við áform um þróun byggðarinnar í Reykjanesbæ sé staðsetning tónlistarskólans við Stapa ágæt. Ekki sé langt í að sá staður verði miðsvæðis í Reykjanesbæ. Einnig sé góðra gjalda vert að nýta sal félagsheimilisins sem tónleikasal en hann tekur fram að til þess að það verði unnt verði að leggja í mikinn kostnað við breytingar á honum. Þá segir Haraldur mikilvægt að húsið verði þannig hannað að hægt verði að halda opinberar skemmtanir í Stapa án þess að sá umgangur sem því fylgi tengist húsnæði tónlistarskólans.

Haraldur segist sannfærður um að vel verði að byggingunni staðið. "Bæjaryfirvöld hafa mikinn metnað í skólamálum. Þau hafa sýnt að þau gera allt sem þau geta til að búa vel að starfseminni. Það er svo hlutverk okkar fagfólksins í skólunum að nýta aðstæðurnar og gera eins vel og við getum í okkar fagi," segir skólastjórinn.

Það er þekkt að nokkuð brottfall er úr tónlistarnámi. Haraldur segir að oft finnist nemendum að nóg sé komið í tónlistarnámi við fimmtán eða sextán ára aldur og hætti. "Við veltum þessu oft fyrir okkur því á þessum aldri eru nemendur oft komnir vel á veg í tónlistarnámi sínu. Þau eru þá komin yfir vissa þröskulda og komin með vissa færni til að leika það sem þau langar til," segir Haraldur og bætir því við að vissulega sé námið orðið meira krefjandi á þessum árum, erfiðari verkefni og meiri tími fari í æfingar. "Þegar kennari finnur að los er að koma á nemandann er mikilvægt að hann geri námið aðlaðandi fyrir viðkomandi, reyni að hafa það eins og hægt er á hans nótum. Oft dugar það til að fleyta nemandanum yfir þessi ár og hann hættir við að hætta."


Blástur og popp
Sterk popphefð er í Keflavík. Haraldur Árni staðfestir að það komi að nokkru leyti fram í tónlistarskólanum. Þannig sé mikill áhugi á gítarnámi. Fyrir fjórum árum hófst kennsla á rafmagnsgítar. Nú er kennari í fullu starfi við þá kennslu og nokkrir tugir nemenda á biðlista eftir að komast að. Töluverð ásókn er einnig í að læra á rafmagnsbassa. "Við erum þó enginn poppskóli. Aðaláherslan er á hefðbundið hljóðfæranám, eins og í öðrum tónlistarskólum," segir hann. Skólinn býður upp á nánast allar hugsanlegar námsgreinar í tónlist, á öllum stigum, allt til framhaldsprófs.
Sterk blásarahefð er í Reykjanesbæ og kemur það einnig fram í starfi tónlistarskólans. Þar eru starfandi lúðrasveitir og léttsveitir. Þær leika mikið við ýmis tækifæri í bæjarfélaginu og víðar. Hægar hefur gengið að efla strengjasveitastarfið þótt markvisst hafi verið að því unnið. "En við sjáum fram á bjartari tíma þar," segir Haraldur og vísar til þess að stefnt sé að ráðningu fiðlukennara í hálft starf til viðbótar til að auka við þá kennslu og er það hluti af markmiðum skólans við uppbyggingu strengjadeildar.

© mbl.is/Árvakur hf, 2004

Bloggsafn

Um mig / about me

Myndin mín
Bass player, father, husband, band member, musician, son, brother, hobby photographer, friend, coffee drinker,
    eXTReMe Tracker