16. apr. 2004

Viðtal við útskriftarnema af Jazz og Rokkbraut F.Í.H. vorið 2004, er birtist í Morgunblaðinu


..........Ívar............Sigurdór..............Siggi.....

Leiðir þeirra félaga lágu saman í Tónlistarskóla FÍH þar sem þeir hafa verið við tónlistarnám undanfarin fimm til sex ár. Þeir eru þessa dagana að undirbúa sig fyrir burtfarartónleika, en allir ljúka þeir burtfararprófi frá djassdeild skólans á næstu dögum. Þrátt fyrir að deila þá ekki sama skóla lengur, eru þeir ekkert hræddir um að tengslin rofni og leiðir skilji því saman mynda þeir djasshljómsveitina Angurgapa, sem flytur einungis frumsamið efni, var í fyrstu tríó, en telst nú vera orðið tvöfalt tríó, þar sem hljómsveitarmeðlimum hefur fjölgað um helming frá stofnun.
Auk þremenninganna, sem nú eru að útskrifast, þeirra Sigurðar Rögnvaldssonar gítarleikara, Sigurdórs Guðmundssonar bassaleikara og Ívars Guðmundssonar trompetleikara, skipa hljómsveitina þeir Kristmundur Guðmundsson trommari, Finnur Ragnarsson básúnuleikari og Egill Antonsson hljómborðsleikari.

"Bandið varð til í skólanum fyrir um tveimur árum og hefur verið að spila á tónleikum í framhaldsskólum og á ýmsum reykmettuðum öldurhúsum. Við erum allir orðnir mjög góðir vinir og eigum örugglega eftir að hittast oft og spila saman, þó ekki væri nema fyrir okkur sjálfa að hittast og hafa gaman af," segir Sigurður Rögnvaldsson, spurður um tilvist hljómsveitarinnar Angurgapa, sem í reynd þýðir annars vegar galgopi og hins vegar forn galdrarún. Burtfarartónleikar Sigurðar verða 17. apríl, Ívars 19. apríl og Sigurdórs 8. maí.


Galopin framtíð
Þegar þeir eru spurðir hvaðan tónlistaráhuginn sé sprottinn, eru svörin af ýmsum toga. "Ætli manni hafi ekki bara verið att út í þetta. Allavega byrjaði ég sex ára gamall í forskóla Tónmenntaskóla Reykjavíkur og er því búinn að vera í þessu í heil fimmtán ár," svarar Ívar. "Það er þó alltaf eilífðarspurning hvað maður ætlar að verða þegar maður verður stór. Ég stefni á verkfræðinám við HÍ í haust, en framhaldsnám í músíkinni er sko alls ekkert útilokað."
Sigurdór segist hafa verið "seinþroska" og farið fyrst í einkatíma fyrir tólf árum , þá 18 ára gamall, sé blokkflautunám í sex ára bekk undanskilið. "Við Sigurður tókum kennaradeildina líka og höfum verið að kenna með, ég við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og hann við Gítarskóla Íslands. Annars er framtíðin mín alveg galopin og engin hernaðaráform í gangi," segir Sigurdór.

"Ég hef verið að læra, bæði skipulega og óskipulega, frá tíu ára aldri, en þá byrjaði ég fyrst að læra á gítar," svarar Sigurður, sem átti sér sjö árum eldri bróður sem spilaði á gítar og var mikil fyrirmynd. "Ég byrjaði hins vegar í tónlistarnámi í FÍH um leið og ég fór í menntaskóla og þegar stúdentsprófinu var lokið, ákvað ég að hella mér af dálitlum krafti út í músíkina. Upphaflega planið var að gefa þessu eitt ár, en eftir að af stað var farið varð ekkert aftur snúið. Ég hef hugsað mér að taka frí frá námi í eitt ár og halda áfram kennslu, en svo stefni ég vonandi á framhaldsnám í tónlistinni í útlöndum eftir það."

Þremenningarnir eru sammála um að líf tónlistarmanna, líkt og lífið almennt, sé hálfgert lotterí, en þeir eru sannfærðir um að möguleikar tónlistarmanna á Íslandi aukist með aukinni menntun. "Hæfileikar einir og sér eru góðir og gildir, en það gerist ekkert án vinnu. Möguleikarnir fara að opnast, hafi menn víðan grunn að byggja á."

Bloggsafn

Um mig / about me

Myndin mín
Bass player, father, husband, band member, musician, son, brother, hobby photographer, friend, coffee drinker,
    eXTReMe Tracker