7. apr. 2005

Múlinn festir sig í sessi (Úr Mbl)

Djassklúbburinn Múlinn stendur um þessar mundir fyrir tónleikum á fimmtudagskvöldum í Gyllta salnum á Hótel Borg og verður svo út apríl. Tónleikar Múlans hafa fyrir löngu skipað sér fastan sess í tónleikaflóru höfuðborgarsvæðisins, en til þeirra var stofnað árið 1997.

Nú í vor verða haldnir tíu tónleikar í röðinni og voru þeir fyrstu haldnir þann 17. febrúar síðastliðinn, þegar kvartettinn Pólís reið á vaðið. Næstu tónleikar raðarinnar verða haldnir annað kvöld þegar hljómsveitin Skonrokk, skipuð þeim Sigurdóri Guðmundssyni bassaleikara og hljómsveitarstjóra, Ívari Guðmundssyni á trompet, Óskari Guðjónssyni á tenórsaxófón, Sigurði Rögnvaldssyni á gítar og Jóhanni Hjörleifssyni á trommur, flytur frumsamda tónlist og hefjast tónleikarnir kl. 21.

Benedikt Garðarsson situr í stjórn Múlans ásamt Ólafi Jónssyni og Ásgeiri Ásgeirssyni og spurði Morgunblaðið hann út í röðina í ár.

Hvað er það sem einkennir tónleikaröðina í ár?

"Við höfum haft dálítið af mjög flottri klassík, en þó hefur líka verið ýmislegt annað. Til dæmis var tríó sem kallar sig GRAMS með tónleika 24. febrúar, sem spilaði svolítið pönkskotna og frjálsa músík og Skonrokk, sem leikur á næstu tónleikum, flytur frumsamda tónlist, sem er eflaust dálítið rokkskotin."

Hvernig veljast flytjendur í tónleikaröðina?

"Við höfum umsóknareyðublöð sem eru aðgengileg á Netinu og tónlistarmenn sækja því sjálfir um að fá að vera með. Langflestir sem sækja um að vera með tónleika innan raðarinnar komast að. Við högum röðinni einfaldlega eftir því hversu marga álitlega tónlistarmenn við fáum til að spila hjá okkur."

Er mikil gróska í íslensku djasslífi?

"Já, ég myndi segja það. Það er alltaf að koma nýtt og nýtt fólk út úr djassdeildinni í Tónlistarskóla FÍH sem bætist í hópinn og heldur tónleika bæði í Múlanum og víðar. Og síðan bætast líka við eldri tónlistarmenn í flóruna, eins og eiginmaður Sunnu Gunnlaugsdóttur píanóleikara, Scott McLemore trommuleikari, sem er farinn að spila hérna núna, og Zbigniew Jaremko saxófónleikari, sem starfar sem tónlistarkennari í Bolungarvík og hefur haldið nokkra tónleika í Reykjavík. Þannig að þetta eru ekki bara krakkar, heldur líka eldra fólk sem er að koma inn."

Hvers konar fólk kemur á tónleika Múlans?

"Það er nú allur skalinn og töluverð breidd í aldri áheyrenda.

Það er heldur ekki alltaf sami hópurinn sem mætir, þó að það sé viss kjarni sem mæti á flesta tónleikana."

Er Múlinn kominn til að vera?

"Já, það held ég örugglega. Við finnum fyrir miklum áhuga og menn eru staðráðnir í því að halda þessu gangandi. Tónleikar Múlans eru að vissu leyti leiðandi, því þetta eru tónleikar sem hafa verið fastur liður síðustu átta ár í djasslífinu á höfuðborgarsvæðinu."


Benedikt Garðarsson

Benedikt Garðarsson er fæddur árið 1949 á Selfossi, en hefur síðan verið búsettur á höfuðborgarsvæðinu. Hann er hárskeri að mennt og starfar sem slíkur. Benedikt hefur setið í stjórn djassklúbbsins Múlans undanfarin tvö ár. Eiginkona Benedikts er Elín Helgadóttir og eiga þau tvær dætur.

Bloggsafn

Um mig / about me

Myndin mín
Bass player, father, husband, band member, musician, son, brother, hobby photographer, friend, coffee drinker,
    eXTReMe Tracker