
Get ekki annað en mælt með snilldar þáttum Sigtryggs Baldurssonar "Með tónlistina að vopni" sem eru sendir út á Rás 1 Ríkisútvarpsins á laugardögum kl. 17:00.

En þar segir Sigtryggur Baldursson frá (í þremur þáttum) baráttumanninum óforbetranlega Fela Kuti og tónlist hans sem kölluð var Afróbít. Nígeríumaðurinn Fela Kuti notaði tónlist sína sem vopn í baráttu sinni við spilltar herforingjastjórnir í heimalandi sínu, Nígeríu. Hann þurfti að lokum að gjalda uppreisnaranda sinn dýru verði en lét aldrei bugast í frjálslegum lifnaðarháttum sínum og skoðunum. Þættirnir eru endurfluttir á þriðjudagskvöldum.
