21. jan. 2005

Arnar Eggert stingur í Stúf.

TÓNLIST - Íslenskar plötur

Það leynist ýmislegt...
Ýmsir - Stúfur

Fram koma Ókind, Hermigervill, Topless Latino Fever, Doddi, Lokbrá, Atli &, bob, Isidor og Hjaltalín. Stúfur er gefin út af þátttakendum en umsjón með útgáfunni var í höndum Atla Bollasonar.


...undir jólatrénu og eitt af því fornvitnilegra sem ég fann þetta árið var þessi diskur hér, Stúfur. Atli nokkur Bollason, ungur tónlistarmaður (Frír bjór, Norton, Atli og Leó) gekkst fyrir útgáfu þessarar "neðanjarðar"-jólaplötu sem inniheldur ungar hljómsveitir og listamenn á borð við Isidor, bob, Lokbrá, Hermigervil og Ókind. Það er nokkuð um það á hverju ári að fólk flippi eitthvað með jólalögin en sjaldnast er það borið á borð fyrir almenna kaupendur. Stúfur bætir úr því og sum innslögin hér í jólalagakreðsuna eru ágæta vel heppnuð og gæða útjaskaðan geira ferskleika. Diskurinn er þá í sönnum jólaanda að því leytinu til að allur ágóði hans rennur óskiptur til Mæðrastyrksnefndar.
Segja má að öll lögin hér séu utan garðs með tilliti til þeirrar jólatónlistar sem glymur á þorra landsmanna um hátíðarnar. Hér er í nær öllum tilfellum reynt að blanda nýjum blæbrigðum og tónum við auðþekkjanlegar uppskriftir.

Ókind ríður þannig á vaðið með útgáfu á "Jólakettinum" eftir Ingibjörgu Þorbergs (sem Björk flutti m.a. á plötunni Hvít er borg og bær árið 1987). Útgáfa Ókindar er skemmtilega rafmögnuð og bara nokkuð mögnuð líka.

Atli & flytur þá "The Christmas Song" (Hér "Ristaðar kastaníur". Lagið er frægast í flutningi Nat King Cole og inniheldur m.a. upphafslínurnar "Chestnuts roasting on an open fire..."). Mjög smekkleg og nýstárleg útgáfa af þessu sígilda lagi. God Speed You Black Emperor! útgáfa Dodda af "White Christmas" er nokkuð vel heppnuð og hin mistæka sveit bob á þá glæsilegt útspil hér með frumsamda laginu "Clowns in Christmas Town". Víruð furðusmíð sem gengur upp, eins og sjálfir Slint hefðu reynt sig við hátíðarlag.

Lokbrá eiga athyglisverðasta lagið, útgáfu af "Ó helga nótt", og er sannarlega ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur. Lagið ber með sér hráan sjarma, er greinilega flutt af metnaði og ástríðu en söngurinn er full falskur.

Ekki er þó allt jafn vel heppnað. "Jólasull" Hermigervils er nákvæmlega það, miður heppnað sull, Topless Latino Fever ganga rangsælis í kringum lagið "Göngum við í kringum" og innlegg Isidor fellur á milli þilja. Ég á erfitt með að átta mig á lagi Hjaltalín.

Eðlilega kannski eru einstök gæði laga brokkgeng en umgjörðin og hugmyndafræðin á bakvið diskinn vegur upp á móti því. Umslagshönnun er þá minimalísk og svöl og í góðu samræmi við innihaldið. Framtakið sem kom Stúf á kreik er þegar allt er talið bæði verðugt og sniðugt og óhætt að hvetja til áframhaldandi starfsemi í þessa áttina. Alltént fær undirritaður aldrei nóg af "exótískum" jólaplötum sem þessum.

Arnar Eggert Thoroddsen

Bloggsafn

Um mig / about me

Myndin mín
Bass player, father, husband, band member, musician, son, brother, hobby photographer, friend, coffee drinker,
    eXTReMe Tracker